HELSTU VERKEFNI
Vistvæn steypa, hringrásarhús, móberg, kolefnisföngun og snjallmælar eru meðal spennandi verkefna tengt umhverfis- og loftslagsmálum.
Mikil gróska og nýsköpun á sér stað í starfsemi BM Vallár ásamt því að unnið er að fjölmörgum verkefnum með samstarfsaðilum í átt að vistvænni lausnum í mannvirkjagerð.
Förum yfir helstu verkefnin.
Nýjar steypuuppskriftir með umhverfisvænna sementi skipta lykilmáli í vöruframboði okkar. Berglind er ný og vistvæn steypa frá BM Vallá sem er hönnuð fyrir metnaðarfulla framkvæmdaraðila á byggingarmarkaði sem vilja umhverfisvænni lausnir. Berglind tekur mið af breytingum í nýrri byggingarreglugerð, bæði hvað lágmarks bindiefni í öllum styrkleikaflokkum og kolefnisspori.Nú þegar er hægt að fá Berglindi sem hefur 40% lægra kolefnisspor heldur en hefðbundin steypa* og unnið er að þróun fleiri vistvænni steypuuppskrifta og mótvægisaðgerða sem miða að því að bjóða fram kolefnishlutlausa steypu árið 2030.
Kolefnissparnaður steypu er a.m.k. 20%*
Kolefnissparnaður steypu er frá 20-30%*
Kolefnisparnaður steypu er frá 31-40%*
*Samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar.
Af hverju rífum við byggingar? Það er vegna þess að byggingar sem eru byggðar á hefðbundinn hátt eru samsettar úr ýmsum byggingarhlutum sem hafa mislangan líftíma en eru algjörlega samtvinnaðir eins og lagnir og burðarhlutar inni í veggjum. Þar af leiðandi er oft erfitt að breyta eða uppfæra án þess að kosta til mikla vinnu með tilheyrandi raski og því er oftast ómögulegt að endurnýta þessa byggingarhluta.
Með verkefninu, Hringrásarhús, erum við, ásamt samstarfsaðilum, að vinna að útfærslu á forsteyptum einingakerfum sem þolir að vera skalað, bæði upp og niður, ásamt því að vera endingargott og sveigjanlegt byggingarefni.
Markmið verkefnisins er að skoða hvort hægt sé að hanna og reisa Hringrásarhús á Íslandi. Hringrásarhús er 40 fermetra sýningarrými sem er hægt að taka í sundur og setja saman aftur. Hringrásarhús verður reist úr forsteyptum byggingareiningum sem lágmarka kolefnisspor og hámarka auðlindanýtingu en markmið er að 90% af byggingarefnum verði endurnotuð eða endurnotanleg.
Margvíslegur ávinningur hlýst af slíkri lausn, meðal annars er verið að draga úr auðlindanotkun og koma í veg fyrir að efni verði að úrgangi. En hægt er að draga úr byggingarúrgangi um 90% með því að nota byggingareiningar sem hægt er að taka í sundur.
Hringrásarhús verður fyrsta húsið á Íslandi byggt á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Verkefnið hefur möguleika á að umbylta því hvernig byggingar eru hugsaðar, hannaðar og byggðar hérlendis ásamt því að veita öðrum geirum innblástur í vöruþróun innan hringrásarhagkerfisins. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Hringrásarsjóð Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Háteigsvegur 59 er þróunarverkefni á vegum Félagsbústaða Reykjavíkur þar sem verið er að hanna íbúðakjarna fyrir skjólstæðinga þess. Húsið verður 500 m2 með átta íbúðum og sérhannað með þarfir hreyfihamlaðra að leiðarljósi. Byggingin er hönnuð með markmið um að kolefnisspor þess verði að lágmarki 30% minna en hefðbundið viðmiðunarhús.
Byggingin verður staðsteypt og hefur BM Vallá tekið þátt í verkefninu frá upphafi hönnunar. Þétt og gott samstarf hönnuða, verkkaupa, verktaka og framleiðanda er mikilvægt til þess að tryggja að metnaðarfull markmið náist. Verkefnið inniheldur nokkur tilraunaverkefni á vegum BM Vallá til þess að knýja niður kolefnisspor steypunnar eins mikið og hægt er samhliða því að tryggja eiginleika steypunnar.
Byggingin er hönnuð af Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt hjá Lendager.
Rannsóknarverkefni þar sem verið er að skoða möguleikana á því að endurvinna gler með því að blanda því saman við fínefni sem falla til við framleiðslu fylliefna (sem vanalega eru ónothæf afurð) og fá úr því 100% endurunnið hráefni sem hefur ýmsa eiginleika.
Einn af möguleikunum sem eru skoðaðir felast í því hvort hægt sé að nota hráefnið sem fyllefni í steinsteypu sem ætluð er til notkunar í íslenskum aðstæðum og stenst íslenskt regluverk.
Ennfremur verður rannsakað hvort hægt sé að mala niður gamla steypu sem fínefni á móti glerinu og ná þar með bæði að endurvinna gler og gamla steypu þannig að úr verði 100% nýtt og sjálfbært fylliefni fyrir steinsteypu.
BM Vallá býður upp á snjallmæla sem eru gerðir til þess að mæla hitastig og áætlaðan styrk viðkomandi steypublöndu. Um er að ræða þráðlausa nema sem er komið fyrir í járnagrind viðkomandi steypuhluta, nálægt yfirborði til að tryggja samband við aflestur með snjallsíma.
Með snjallnemunum er hægt að fylgjast með öllum gildum, allt að því í rauntíma, sem skilar sér í betri ákvörðunartöku t.d. hvað varðar að slá frá mótum. Á norrænum slóðum henta slíkir snjallnemar sérlega vel þegar verið er að steypa í kulda og frosti og öllu máli skiptir að slá af mótum á réttum tíma til að tryggja gæði steypunnar.
Þessi tæknilausn hefur nú þegar sannað sitt notagildi fyrir okkar viðskiptavini með því að veita upplýsingar um hita allt frá upphafi niðurlagnar og um upphafsstyrk þegar steypan byrjar að harðna.
BM Vallá hefur unnið að innleiðingu nýrrar tækni við steypuframleiðsluna, Carbon Cure, þar sem kolefni er dælt inn í steypuna þegar hún er hrærð. Kolefnið sem er notað hefur verið fangað t.d. frá sementsframleiðslu, leyst upp í vatn og því er sprautað inn í steypuna þegar hún er hrærð. Þegar steypan harðnar hvarfast kolefnið með steypunni og myndar steinefni (CaCO3).
Prófanir hafa sýnt að steypa sem er blönduð með þessari tækni er sterkari en hefðbundin steypa og því er hægt að minnka sementsmagn en samt sem áður viðhalda tilteknum styrk.
Ef allar sementsverksmiðjur heims myndu nýta sér Carbon Cure tæknina væri hægt að spara um 550 milljón tonn af losuðu kolefni eða um 15% af heildarframleiðslu kolefna af völdum sements.
Tæknin hefur nú þegar verið tekið í notkun í 150 sements verksmiðjum í Bandaríkjunum. Með því að nýta slíka tækni myndi steinsteyptu mannvirkin okkar haga sér eins og kolefnisgeymar.
Ar2CorD - Low Carbon Concrete for Arctic Climate with Excellent Sustainability and Durability er samstarfsverkefni norskra, grænlenskra, finnskra, sænskra og íslenskra aðila sem snýst um að minnka kolefnisspor steypu með staðbundnum íblöndunarefnum í stað hefðbundins sements allt að 30%.
Ein megin áskorunin er að takast á við þá miklu áraun sem steypa verður fyrir vegna frost- og hitabreytinga á norðurslóðum og hefur valdið því að ekki er unnt að nýta sömu íblöndunarefni til minnkunar á kolefnissporinu og við mildari veðuraðstæður. Íslensku þátttakendurnir eru tveir, Háskólinn í Reykjavík og BM Vallá ehf.