„Forgangsröðun okkar tekur mið af því að draga úr kolefnisspori sementsins þar sem það vegur þyngst í allri losun.“
Ég er mjög ánægður með þann árangur sem við náðum í loftlagsmálum á síðasta ári. Árið 2022 var fyrir margar sakir krefjandi ár í starfseminni enda lokuðust sementsmarkaðir í kjölfar stríðsins í Úkraínu sem varð til þess að leita þurfti til fimm ólíkra sementsbirgja til að halda uppi framleiðslugetu á steypu. Það hafði óneytanlega áhrif á kolefnissporið, enda ber sement ábyrgð á 85-90% af losun steypunnar. Þrátt fyrir það náðist góður árangur í að draga úr kolefnisspori steypunnar, eða 5,6% og ef horft er til samanlagðs árangurs síðustu tveggja ára þá er lækkunin 14,3% sem samsvarar 90% af allri losun ökutækjaflota BM Vallá yfir sama tímabil. Yfirlýst markmið okkar um að steypuframleiðsla og starfsemi verði kolefnishlutlaus 2030 gerir að verkum að allar okkar áherslur taka mið af því hvernig við getum dregið úr neikvæðum loftslagsáhrifum í daglegum verkefnum okkar, framleiðslu, vali á birgjum og athöfnum.
Á árinu unnum við að margvíslegum verkefnum sem koma til með að gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Þar má nefna þróun á nýju bindiefni í sementi, með íslensku móbergi, en það gæti haft afar jákvæð áhrif á kolefnispor byggingariðnaðarins á heimsvísu. Þá styttist í risastórt loftslagsverkefni sementsbirgja okkar, Norcem í Noregi, sem er að reisa kolefnisföngunarstöð og kemur til með að fanga alla losun frá sementsframleiðslunni.
Viðskiptavinir okkar hafa tekið Berglindi, nýju vistvænu steypunni okkar, fagnandi enda mikill metnaður hjá mörgum framkvæmdaraðilum að hafa steypu í mannvirki þeirra eins vistvæna og hugsast getur.
Við fylgjumst grannt með orkuskiptum í tengslum við aksturs- og tækjaflota okkar og erum þátttakendur í þróunarverkefnum sem miða að lausnum tengt vistvænni orkugjöfum. Hins vegar er forgangsröðunin okkar skýr, og það er að draga úr kolefnisspori sementsins, þar sem það telur þyngst í kolefnisspori starfseminnar.
Samfélagsleg ábyrgð er okkur hugleikin og sýnum við það meðal annars í verki með fjölmörgum verkefnum tengt samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallár eins og Römpum upp Ísland, Unicef og UN Woman ásamt stuðningi við ýmis verkefni í nærsamfélaginu.
Sjálfbærniskýrsla BM Vallár hefur að geyma upplýsingar um helstu umhverfisþætti félagsins, áherslur, markmið og áskoranir í tengslum við sjálfbærni. Skýrslan kemur út annað árið í röð og hafa gögn umhverfisþátta verið yfirfarin og staðfest af Klöppum.
Sá árangur sem við höfum náð er langt í frá sjálfgefinn og ég vil þakka frábæru teymi okkar hjá BM Vallá fyrir þá miklu vinnu sem að baki liggur. Við munum halda áfram að setja okkur metnaðarfyllri markmið tengt umhverfismálum, enda er framtíðarsýnin okkar skýr, við ætlum okkur að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins og er það markmið sem við vinnum að alla daga.
Þorsteinn Víglundssonforstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, móðurfélags BM Vállar.