Við leggjum ríka áherslu á að skapa gott vinnuumhverfi fyrir starfsfólk og stuðla að góðri vinnustaðamenningu.
Síðastliðin tvö ár hefur sérstök áhersla verið lögð á fræðslu tengda jákvæðum samskiptum og eflingu upplýsingamiðlunar, sérstaklega þegar kemur að miðlun til erlends starfsfólks. Þannig hefur allt efni fyrir starfsfólk verið þýtt yfir á ensku og pólsku og túlkar eru á starfsmannafundum þegar á þarf að halda.
Öflugt fræðslukerfi er starfrækt hjá BM Vallá og áður en nýtt starfsfólk kemur til starfa þarf það að ljúka nýliðafræðslu sem felur m.a. í sér öryggisþjálfun og kynningu á starfseminni. Starfsfólk BM Vallá tekur vel á móti nýliðum í starfi og hefur mikinn metnað til að styðja við bakið á nýju samstarfsfólki.
Hjá BM Vallá, og móðurfélaginu Hornsteini, starfa hátt í 180 manns á sex starfsstöðvum, Reykjavík, Garðabæ, Akranesi, Reyðarfirði og Akureyri. Nokkuð hallar á konur í störfum hjá fyrirtækinu, en 12% starfsfólks eru konur. Fyrirtækið starfar innan þess geira sem hingað til hefur verið álitinn karllægur, en unnið er markvisst að því að leiðrétta hlutfall kynjanna innan fyrirtækisins með áherslu á sveigjanleika í starfi og vinnutíma.
BM Vallá hlaut jafnlaunavottun 2021. Með því að starfa undir því kerfi og þeim ferlum sem í jafnlaunakerfi felst tryggir fyrirtækið enn frekar að ekki halli á kynin þegar kemur að launum og umbun fyrir jafnverðmæt störf.
BM Vallá leggur áherslu á að ábyrgð og verkferlar séu skýrir, að stjórnun byggist á gagnsæi og hreinskiptni, að innan fyrirtækisins sé virk og aðgengileg upplýsingagjöf og að allt starfsfólk hafi gott aðgengi að stjórnendum. Lögð er rík áhersla á jafnrétti og hvers konar mismunun er óheimil. Jafnlaunastefna er órjúfanlegur hluti af launastefnu fyrirtækisins.
Viðbragðsáætlun er í gildi sem hefur það að markmiði að útrýma einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og ofbeldi á vinnustað, skv. reglugerð nr. 1009/2015 og lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Sjá einnig jafnlaunastefnu.
Starfsánægjukannanir eru framkvæmdar reglulega og úr þeim hafa verkáætlanir mannauðssviðs verið settar af stað til að bregðast fljótt og vel við niðurstöðum um hvað megi betur fara. Að meðaltali tekur um 70% starfsfólks þátt og ánægjumatið mælist í kringum 4 af 5 mögulegum, sem þykir góður árangur.
Hjá BM Vallá er rúmlega 50% starfsfólks af erlendu bergi brotið og því óhætt að segja að hjá fyrirtækinu ríkir mikil fjölmenning. Flestir eru frá Póllandi, en einnig er starfsfólk frá Litháen, Kamerún, Filippseyjum, Úkraínu, Bandaríkjunum, Taílandi og Lettlandi. Það er mikilvægt að allar upplýsingar komist til skila á íslensku, ensku og á pólsku og að allir hafi sömu tækifærin til starfsþróunar innan fyrirtækisins, óháð uppruna.
Starfsfólk okkar er á breiðu aldursbili og leggjum við ríka áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri óháð aldri.
Fyrirtækið vill vera eftirsóknarverður vinnustaður sem tryggir góð starfsskilyrði og möguleika til starfsþróunar. Leiðarljós í samskiptum eru siða- og samvinnureglur starfsfólks sem gefnar voru út á árinu. Þær voru gerðar í samvinnu við starfsfólk til að ramma betur inn áherslur, reglur og viðmið í tengslum við jákvæð samskipti og samstarf.
Fyrirtækið útvegar öllu starfsfólki fatnað sem hæfir kröfum starfsins, hlífðarbúnað og öryggisbúnað. Starfað er eftir heilsustefnu sem stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu. Heilbrigði á sál og líkama er haft að leiðarljósi í allri vinnu hjá fyrirtækinu og skilningur er á að góð heilsa er ein aðalforsenda þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Starfsfólk er hvatt til þátttöku í heilsueflingu fyrirtækisins, að huga að heilbrigðu líferni og leggja rækt við eigin heilsu.
Starfsfólk fær íþróttastyrk til að greiða niður kostnað við hreyfingu og íþróttaástundun. Fyrirtækið er í samstarfi við Heilsuvernd sem er viðurkenndur þjónustuaðili á sviði heilsu- og vinnuverndar hjá Vinnueftirliti Ríkisins.
Mikil áhersla er lögð á hollan mat í mötuneyti BM Vallár, þar sem starfsfólk hefur kost á að borða góðan, fjölbreyttan og næringarríkan hádegismat því að kostnaðarlausu, utan hlunnindaskatts.
Sökum sérhæfðrar starfsemi fyrirtækisins er flest starfsfólk með menntun sem starfið krefst, svo sem vinnuvélaréttindi og meirapróf ásamt háskólaprófi í vélaverkfræði, byggingarfræði, jarð- og efnafræði.
Fyrirtækið leggur metnað í að viðhalda þeirri miklu þekkingu og reynslu sem býr hjá starfsfólki og styrkir starfsfólk til frekara náms eða endurmenntunar til að efla færni og þekkingu. Þannig hefur fyrirtækið styrkt starfsfólk til meiraprófs, vinnuvélaréttinda og stjórnunarnáms. Að auki stendur öllu erlendu starfsfólki til boða að fara í íslenskunám.