„Það er yfirlýst stefna okkar að taka ábyrgð á allri losun framleiðslunnar, þ.m.t. sementsins, þó svo að það telji ekki beint inn í losunarbókhald landsins.“
Við höfum sett okkur það metnaðarfulla markmið að öll steypuframleiðsla BM Vallá og starfsemi verði kolefnishlutlaus árið 2030. Þessar áherslur eru rauði þráðurinn í stefnumörkun okkar og ætlum við að leita allra leiða til að draga úr kolefnissporinu í starfseminni.
Til að berjast gegn loftslagsvánni verða allir hagsmunaaðilar í byggingariðnaði að láta til sín taka og koma fram með lausnir sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við skorumst ekki undan þeirri ábyrgð og á árinu náðist góður árangur sem miðar í þessa átt. Meðal annars buðum við fram umhverfisvænni steypu sem hefur 40% minna kolefnisspor, en hefðbundin steypa, ásamt því að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni dróst saman um rúm 10% pr. framleiddan rúmmetra. Einnig náðum við að minnka sementshlutfall í steypuuppskriftum okkar um 20%. Þessi jákvæði árangur hvetur okkur enn frekar til dáða og markar skýr græn spor í sandinn á vegferð okkar í átt að kolefnishlutleysi.
Það er yfirlýst stefna okkar að taka ábyrgð á allri losun framleiðslunnar, þ.m.t. sementsins, þó svo að það telji ekki beint inn í losunarbókhald landsins. Með því tökum við 100% ábyrgð á allri virðiskeðjunni en sement vegur þungt í losun steypunnar og ber ábyrgð á 85-90% af losuninni.
Væntanlegar breytingar á kafla um steypu í byggingarreglugerð kemur til með að marka tímamót þar sem umhverfisáhrif steypunnar eru tekin fastari tökum og styður við okkar stefnu á kolefnishlutleysi. Við erum þess sannfærð að steinsteypan sé afar góður kostur fyrir trausta mannvirkjagerð, enda fá byggingarefni sem tryggja jafngóðan endingartíma og öryggi.
Hringrásarhugsun og endurnýting hefur verið okkur hugleikin og höfum við aukið endurnýtingarhlutfall steypu um 7%. Mörg áhugaverð verkefni eru í farvatninu sem miða að enn betri árangri í verkefnum sem tengjast hringrásarhagkerfinu, bæði í eigin starfsemi og með samstarfsaðilum okkar.
Á árinu fengum við jafnlaunavottun og tókum þannig mikilvægt skref í átt að bættu jafnrétti kynjanna. Samfélagssjóðurinn Hjálparhella BM Vallá var settur á laggirnar og studdi sjóðurinn m.a. við bakið á UNICEF og verkefninu Römpum upp Reykjavík.
Það er okkur starfsfólki afar ánægjulegt að gefa út fyrstu samfélagsskýrslu BM Vallár og miðla upplýsingum um þær áherslur, árangur og markmið okkar sem tengjast samfélagsábyrgð. Við viljum vaxa og dafna í sátt við umhverfi og samfélög og með skýrri framtíðarsýn um kolefnishlutleysi og ábyrgð á allri losun steinsteypunnar leggjum við okkar á vogarskálarnar í átt að grænni framtíð.
Þorsteinn Víglundsson forstjóri Hornsteins, móðurfélags BM Vállar.